„Verulegar skuldbindingar“

„Við eigendur Samherja tókum á okkur verulegar skuldbindingar eftir hrun og við munum að sjálfsögðu nýta að hluta þennan arð til að greiða niður þessar skuldbindingar. Það er útilokað, hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða prívat eigendur, ég held að menn vilji ekki vera í fjárfestingum nema hafa einhverja möguleika á að borga fjárfestingarnar niður.“

Þetta segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og einn aðaleigandi fyrirtækisins og margra annarra, í samtali við fréttastofu RÚV.

Þorsteinn Már Baldinsson segir í umræðu um veiðigjöld og milljarða arðgreiðslur til eigenda, að þeir hafi tekið á sig „verulegar skuldbindingar“ og Samherji leggi mikið til samfélagins, meðal annars í formi tekjuskattsins sem óbreyttir starfsmenn greiða af launum sínum. Mynd: Rúv.

Þorsteinn Már Baldinsson segir í umræðu um veiðigjöld og milljarða arðgreiðslur til eigenda, að þeir hafi tekið á sig „verulegar skuldbindingar“ og Samherji leggi mikið til samfélagins, meðal annars í formi tekjuskattsins sem óbreyttir starfsmenn greiða af launum sínum. Mynd: Rúv.

Hver dáist ekki að slíkri fórnfýsi? Hver finnur ekki til með milljarðamæringum sem taka á sig „verulegar skuldbindingar“? Niðurstaðan af því hlýtur að eiga að verða einhvern veginn á þá leið að frekari umræður um auðmannaskatt og auðlindagjöld sé óþarfar. Þetta súlurit sýni ekki aðeins hlutina eins og þeir eigi að vera, heldur sé líka óumdeildur leiðarvísir til framtíðar:

Myndin sýnir hvernig ríkisstjórnin hefur miðlað gríðarlegum verðmætum til fárra eigenda útgerðarfyrirtækja. Á sama tíma hafa innviðir samfélagsins verið vanræktir.

Myndin sýnir hvernig ríkisstjórnin hefur miðlað gríðarlegum verðmætum til fárra eigenda útgerðarfyrirtækja. Á sama tíma hafa innviðir samfélagsins verið vanræktir.

Að minnsta kosti þangað til einhver spyr: Hvaða skuldbindingar er maðurinn að tala um?

Má vera að í þessu tilvki sé dugnaðurinn fólgin í kaupum á útgáfufélagi Morgunblaðsins og niðurgreiðslu á rekstri þess? Felst hann í kaupum á olíufélagi, stórum hluta innflutnings og heildsölu í landinu? Um þetta eru ýmis dæmi (sjá t.d. hér og hér. Og þau finnast víðar en í útgerð).

Þá vaknar spurning. Hvort er betra fyrir samfélagið að:

aAlmenningur fái í sinn hlut réttlátan skerf af sameignlegri auðlind sinni til að greiða fyrir velferð, menntun og aðra innviði?

bÖrfáir einstaklingar fái að sitja einir að næstum öllum afrakstri sameiginlegrar auðlindar og sölsi í framhaldinu undir sig annan atvinnurekstur í landinu?

Ég læt þér eftir svarið lesandi góður.

Æ sér gjöf til (veiði)gjalda?

Hún er ekki fögur myndin sem birtist með grein í Fréttablaðinu í morgun. En hún er mikilvæg og lýsandi. Hún sýnir hagsmuni hverra ríkisstjórnin hefur í forgangi.

Myndin sýnir hvernig ríkisstjórnin hefur mokað milljörðum í vasa kvótaþega.

Myndin sýnir hvernig ríkisstjórnin hefur mokað milljörðum í vasa kvótaþega. Eva H. Baldursdóttir lögfræðingur á heiðurinn af myndinni.

Þetta er bara arðurinn í vasa örfárra eigenda útvegsfyrirtækjanna. Hagnaður af rekstri þeirra er miklu miklu meiri. En við sjáum þarna svo glöggt hvernig almenningur í landinu er settur til hliðar. Og við okkur blasir hvers vegna ekki fást peningar til að standa undir heilbrigðiskerfinu, skólunum, vegunum, öllum öðrum vanræktum innviðum. 

Og svo getum við spurt okkur hverjir fengu alla þessa milljarða. Svarið við því má finna á annarri mynd úr grein sem birtist nýlega í Fréttatímanum.

Myndin sýnir eignarhald stærstu útvegsfyrirtækjanna. Þau fá úthlutað amk. 75% af kvótanum við Ísland.

Myndin sýnir eignarhald stærstu útvegsfyrirtækjanna. Þau fá úthlutað amk. 75% af kvótanum við Ísland.

Myndin sýnir hvað það eru ótrúlega fáar manneskjur sem stinga arðinum af sjávarútvegsauðlindinni í eigin vasa. Þúsundir milljóna króna á hverju ári færðir frá almenningi í vasa innan við eitthundrað einstaklinga.

Það er staðreynd að fyrirtækin á þessum lista hafa verið drjúg í því að „styrkja“ núverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Um styrki til flokkanna á síðasta kjörtímabili má lesa hér. Nýjustu tölur frá Ríkisendurskoðun sýna glögglega að ekkert hægir á peningastraumnum (sjá hér og hér).

Hvaða ályktanir dregur þú af því?

Hriplekt hagkerfi

„Við verðum að hafa jöfnuð í einu hagkerfi. Og það verður að finna balans í einu hagkerfi þar sem ekki er atvinnuleysi, ekki er sultur, þar sem fólk hefur aðgang að heilbrigðisþjónustu og menntun og þar sem ekki eru milljarðamæringar. Að eignast milljarð í einu hagkerfi, þá hefur maður fundið leka í hagkerfinu. Hagkerfið er ekki að virka rétt ef maður getur eignast milljarð. Hvað er þetta sex, sjö ævilaun læknis, gæti ég trúað. Þetta eru gífurlegir peningar. Mér finnst að fólk geti orðið smart upp á eigin ævilaun, en þegar þetta eru orðin margföld ævilaun hálaunastéttar þá er kominn upp leki. Þá er mín spurning: Er eitthvað að hagkerfinu eða er maðurinn þjófur? Ég er ekki að spyrja að þessu því að það var Laxness sem spurði um þetta fyrst.”

Þetta sagði Guðni Stefánsson uppeldisfræðingur í útvarpsviðtali fyrir fimm árum. Þetta á enn við. Ég er sammála Guðna.

 

Villuráfandi hagfræðingur

Það getur komið fyrir ágætasta fólk að fara með rangfærslur eða éta þær upp eftir öðrum. Svo eru dæmi um að fólk getur spennt bogann svo hátt að hann brestur. Hvort tveggja hendir Bolla Héðinsson hagfræðing.

Hann ber Vinstri græn þungum sökum ásamt Tortólaflokkunum í grein í Fréttablaðinu og á Vísi. Þar fjallar hann um nýjan búnaðarsamning og meintan skilyrðislausan stuðning VG við málið.

Gróðureyðing í boði VG, Sjálfstæðis og Framsóknar“ kallast skrifið. Þetta eru stór orð. Þeim hljóta að fylgja rök.

Þau er ekki að finna í greininni. Undir þessari stóru fyrirsögn stendur aðeins þessi stutta efnisgrein:

„Meðal þess sem sauðfjárhluti landbúnaðarsamningsins hvetur til er aukin gróðureyðing á viðkvæmum svæðum. Prófessor við Landbúnaðarháskólann hefur varað við þessu í blaðagreinum án þess að því hafi verið mótmælt.“

Í stuttu máli: Þetta stenst ekki skoðun. Hagfræðingurinn er á algjörum villigötum.

Nánar: Grein Bolla ber með sér að hann hefur ekki haft fyrir því að kynna sér efnið. Ef menn vilja láta taka mark á sér, þá er lágmark að þeir færi sannfærandi rök fyrir stóryrðum.

Ég leyfi mér að grípa niður í greinargerð Landssamtaka sauðfjárbænda við umrætt mál:

„Engin haldbær rök hníga að því að þær kerfisbreytingar sem í nýja samningnum felast leiði til fjölgunar fjár. Framleiðsla á lambakjöti hefur verið frjáls og án kvóta í rúm 20 ár en fé fækkað. Ótti við offramleiðslu eða aukið beitarálag er beinlínis órökréttur og ástæðulaus miðað við efni samningsins.

Áfram er stutt er við siðlega búskaparhætti í nýja samningum, m.a. með því að styrkja verulega gæðastýringu í sauðfjárrækt sem hefur verið eitt öflugasta sjálfbærniverkefni hér á landi frá 2003. Komið verður á sívirku rannsóknar-, mats- og vöktunarkerfi á landi til að styrkja vísindalegan grundvöll skynsamlegrar beitarstýringar.“

Við þetta má bæta að sauðfjárbændur hafa farið fremstir í flokki við uppgræðslu og landbætur. Þetta hafa þeir gert í samstarfi við Landgræðsluna í verkefninu Bændur græða landið og ekki síður í tengslum við landbótaáætlanir sem eru lykilþáttur í gæðastýringu sauðfjárræktar. Varlega áætlað hafa bændur grætt upp a.m.k. 45 þúsund hektara lands undanfarin ár í tengslum við þessi verkefni.

Það er reyndar svo að undanfarin ár hafa bændur grætt upp land með mun meiri hraða en sem nemur hraða gróðureyðingar og ofnýtingar liðinna alda.

Grein hagfræðingins er annars minnst um þetta. Inntak hennar er einhvers konar útlistun á hans eigin hugmyndum um landbúnað og fýla út í VG og rekstur á samfélagslegum grunni. Fyrirsögnin „Lofsöngur til frjálshyggjunnar“ hefði sennilega lýst henni betur.

Staðreynd: Jörðin er flöt

Það er staðreynd að jörðin er flöt. Það er staðreynd að brauðmolakenningin virkar. Það er staðreynd að mín skoðun er staðreynd.

Þennan söng mætti kalla einkennislag íslenskra frjálshyggjumanna. Ímyndun og óskhyggja sett fram sem staðreynd, án tillits til röksemda, gagna, lærdóma reynslunnar eða einfaldlega veruleikans eins og hann blasir við okkur flestum.

Nýleg dæmi eru um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar vill fyrrverðandi menntamálaráðherra gera grundvallarbreytingar á grundvelli hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. Nú síðast ríður prófkjörsframbjóðandi úr sama flokki fram á völlinn á flokkslínu frjálshyggjunnar:

„Það er staðreynd að yfirgnæfandi meirihluti námsmanna mun verða í betri fjárhagslegri stöðu verði frumvarpið samþykkt.“

Þetta má til dæmis umorða svo:

Mín skoðun er staðreynd. Það er staðreynd.

Frumvarp fyrrverðandi menntamálaráðherra um breytingar á LÍN kann að fela í sér jákvæða þætti eða hugmyndir sem byggja mætti á til lengri tíma. Það er ástæðulaust að hafna því með öllu fyrirfram. Þar eru einnig ýmis atriði sem kalla á nánari athugun. Þar er nefnilega ýmislegt að finna sem við fyrstu sýn, og raunar nánari skoðun, vegur að sjálfum grundvelli menntakerfisins: Jafnrétti til náms.

Lítum aðeins á tvennt: Til stendur að afnema tekjutengingu við endurgreiðslu á lánum LÍN. Til stendur að hækka vexti af lánum LÍN um 300% Hvorug þessara tillagna er rökstudd með sannfærandi hætti í gögnum frá Illuga Gunnarssyni.

Lítum á eina mikilvæga staðreynd sem skiptir verulegu máli í þessu sambandi. Muninn á launum karla og kvenna.

Konur á aldrinum 25-29 ára fá almennt 64 þúsund krónum lægri laun á mánuði en karlkyns jafnaldrar. Það slagar upp í 800 þúsund króna launamun á ári. Á þessu aldursbili geta karlar reiknað með að fá fjórum milljónum króna meira í launaumslagið en konur.

Konur á aldrinum 30-34ra ára fá almennt 105 þúsund krónum minna á mánuði en karlkyns jafnaldrar. Árlegur launamunur er hátt í ein komma þrjár milljónir króna á ári. Á þessu aldursbili nemur launamunurinn yfir sex milljónum króna.

Hvernig er hægt að halda því fram að konur standi jafnfætis körlum þegar kemur að endurgreiðslu námslána? Hvernig er hægt að halda því fram að flokkslína frjálshyggjumanna vegi ekki að jafnrétti til náms?

Svarið er einfalt. Hagur námsmanna mun að sjálfsögðu vænkast í heimi ímyndunar og óskhyggju, þar sem:

Það er staðreynd að jörðin er flöt. Það er staðreynd að brauðmolakenningin virkar. Það er staðreynd að mín skoðun er staðreynd.

Og 0,3 prósent íslensku þjóðarinnar lifðu hamingjusöm til æviloka. Köttur út’í mýri osfrv.

„Höldum áfram að berjast. Við verðum“

Screen Shot 2016-05-02 at 16.26.06 1

„Er þetta samfélagið sem ég vil ala börnin mín upp í? Er öllum bara skítsama um að fólk sé niðurlægt á hverjum degi? Ég skammast mín í dag fyrir að vera Íslendingur og það er sárt.“

Þessi orð lét Hjördís Heiða Ásmundsdóttir falla við mótmælastöðu utan við húsnæði Tryggingastofnunar ríkisins fyrr í vor. Hún lýsti þar úr hjólastól sárum vonbrigðum með aðgerðarleysi og áhugaleysi.

Sem betur fer virðist blóðið samt renna í Íslendingum. Það sýna kröftug mótmæli undanfarið í kjölfar frétta úr Panamaskjölunum. Við verðum samt sem áður að gefa gaum að orðum Hjördísar Heiðu. Við getum gert svo miklu miklu betur.

Við hreykjum okkur af frábærum lífsgæðum. Og því er ekki að neita að fyrir marga eru þau sannarlega fyrir hendi. En allt of mörg verða útundan. Og við sættum okkur við þjóðskipulag sem hyglar fáum á kostnað flestra. Samfélag sem hampar auðvaldinu. Það er löngu tímabært að breyta.

Við hreykjum okkur af mesta kynjajafnrétti í heimi. Samt er það ekkert jafnrétti. Það er eitthvað mikið að þegar við metum framlag kvenna almennt minna en karla. Við höfum mikið verk að vinna. Okkur skortir ekki tækifærin og heldur ekki viljann. Við þurfum að ganga til verka. Og verkefnin eru miklu fleiri.

Gleymum heldur ekki varðhundum skattaskjólanna sem ríghalda örvæntingarfullum krumlum í ráðherrastólana. Til hvers? Svo þeir geti geti haldið áfram með nýfrjálshyggjuprógrammið. Einkavæðing grunnstoða á borð við raforkukerfið, bankasala, sjúklingagjöld í veldisvexti, markvissar fjárhagslegar hindranir í menntakerfinu, einkavæðing skóla án umræðu, kverkatakið á almannaútvarpinu. Listinn er miklu lengri. Ekkert á hinum þokukennda verkefnalista hinnar umboðslausu ríkisstjórnar horfir til framfara fyrir íslenskan almenning. Augljós spilling og áberandi skortur á auðmýkt og siðferðisþreki bætir seint það sem vont var fyrir.

Hér þarf nýjar hugmyndir. Nýjan innblástur. Nýjar aðferðir. Nýtt þing og nýja stjórn. Nýtt siðferði. Og tala nú ekki um stjórnarskrá.

Við búum yfir þessu öllu nú þegar og meiru til.

Í landinu höfum við háð þrekmikla baráttu gegn auðvaldi og frekju þeirra fáu sem telja sig eiga tilkall til alls. Ekki aðeins hinna efnislegu gæða, heldur krefjast þeir einnig þess að fá að stýra hugsunum okkar, hugmyndum og tjáningu. Það er ekki í boði. Tími breytinga er genginn í garð. Við finnum þetta hvert hjá  öðru, þegar við upplifum samstöðu og finnum fyrir vorinu, líka í hjartanu. Ekki síst þegar kraftmikið fólk eins og Hjördís Heiða blæs okkur andann í brjóst með orðum sem ég vil gera að mínum:

„Ég bið ykkur innilega, hvert og eitt ykkar: Haldið áfram í vonina og höldum áfram að berjast. Við verðum. Þetta snýst um mannréttindi hvers og eins einasta. Stöndum saman!”

Leiðari úr 1. maí.

Viðskiptafélagar

Það vill gleymast en stundum tengjast menn nánari böndum en liggja á yfirborðinu. Þó kemur fyrir að eitthvað af greftrinum sem kraumar undir niðri vellur upp á yfirborðið. Þannig rifjast þetta upp sem fjallað var um í DV áður en það var tekið yfir af aðilum nátengdum Framsóknarflokknum:

Bjarni var einn þriggja stjórnarmanna frá eignarhaldsfélaginu BNT sem skrifaði upp á umboðið sem veitti honum sjálfum heimild til að veðsetja hlutabréfin í Vafningi, sem hélt utan um fasteignaviðskipti með lúxusíbúðir í Makaó suður af Kína. Hinir tveir mennirnir voru stjórnarmennirnir Jón Benediktsson og Gunnlaugur Sigmundsson, sem er þekktur athafnamaður og meðal annars faðir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins.

Já. Bjarni Benediktsson og Gunnlaugur Sigmundsson voru saman í bissness. Og engum smá bissness.

„Þetta var rosa skemmtilegur dagur og flott flétta.“

Sagði Gunnlaugur.

Í þetta sinn daginn sem tugþúsundir mótmæltu aflandsstjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna. Daginn sem Sigmundur Davíð sagði ekki af sér. Gunnlaugur er ekki ókunnugur skattaskjólafélögum, ekki frekar en Sigmundur Davíð og  Bjarni Benediktsson. 

Ekki er annað að heyra en að þessum félögum finnist bara í góðu lagi að geta sjálfir komið við á aflandseyjunum þegar það hentar þeim sjálfum. Skattaskjólunum sem grafa undan lýðræði. Grafa undan velferðarsamfélaginu og auka ójöfnuð í heiminum.

Er þetta sá félagsskapur sem við viljum að stýri landinu?

 

 

 

Plott og paranoja

Huldufélag Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og það allt er ekki bara eins og að horfa á grínþátt, heldur er eins og heldur persónur upplifi sig hreinlega sem skáldaða karaktera úr einhverju eins og Yes minister.

Þótt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi afhjúpað sjálfan sig í viðtali sem sent var út í Kastljósinu, virðist það hafa takmörkuð áhrif á hans nánustu samstarfsmenn og flokksfélaga, hvað þá sjálfan hann.

Fólk hlýtur að spyrja sig, ekki bara um siðferði, heldur hreinlega um veruleikaskyn þessa fólks.

Grípum niður í viðtal sænsks fréttamanns við Sigmund Davíð þar sem hann er spurður um huldufélagið Wintris:

Bergman: Herra for­sæt­is­ráðherra, hvað get­urðu sagt mér um fyr­ir­tækið Wintris?

Sig­mund­ur: Umm, það er fyr­ir­tæki, ef ég man það rétt, sem er tengt við eitt þeirra fyr­ir­tækja sem ég gegndi stjórn­ar­mennsku í og það hafði viðskipta­reikn­ing, sem eins og ég minnt­ist á, hef­ur verið tal­inn fram á skatt­skýrslu frá því það var stofnað.

(fengið af mbl.is)

Þessi ummæli ganga gegn skjalfestum staðreyndum og raunar yfirlýsingum Sigmundar Davíðs sjálfs. Hér segir maðurinn ósatt í viðtali við sænskan fréttamann og gengur skömmu síðar út úr viðtali fyrir augum allra landsmanna og allmargra annarra.

Annað sem var nýtt var þessi ágæti dagur 31. desember 2009, þegar Sigmundur Davíð seldi 50% hlut sinn í aflandsfélaginu Wintris inc. á einn Bandaríkjadal. (Það eru tæplega minni tíðindi að maður selji hlut í aflandsfélagi sem hann átti ekki til að byrja með, sé nokkuð að marka spunann úr Sigmundi Davíð).

Þriðja sem var nýtt voru hinar óyggjandi staðreyndir, sem eru skjalfestar í gögnum frá lögmannsstofunni Mossac Fonseca, að Sigmundur Davíð var eigandi að 50% hlut í huldufélaginu fram að þeim degi. Hann gerði ekki grein fyrir því í aðdraganda þingkosninganna 2009 og ekki heldur í hagsmunaskráningu þingmanna eftir að hann tók þar sæti.

Fjórða. Sigmundur Davíð var með prókúru á þetta huldufélag eftir að hann lét hlutinn fyrir einn dal. Er svo ef til vill enn?

Fimmta. Venslamaður Sigmundar var að sýsla í þessum málum fyrir hann. (Raunar sá hinn sami sem stýrði bankanum sem slapp við bankaskattinn. Er það önnur saga?).

Þetta er afurð viðamikilla rannsókna blaðamanna sem staðið hafa mánuðum saman, ekki aðeins hérlendis, heldur um allan heim.

Svart er hvítt, ekkert nýtt?

Veruleiki ráðherra og annarra kjörinna fulltrúa Framsóknarflokksins er að gagnrýna Ríkisútvarpið. Líklega enn ein loftárárásin. Eða hvað? Eru allir helstu fjölmiðlar heimsins í víðáttumiklu samsæri gegn Sigmundi Davíð og Framsóknarflokknum? Og ekki aðeins það, heldur einnig forystumönnum í Sjálfstæðísflokknum og borgarfulltrúum sömu tveggja flokka?

„You would be paranoid if everyone was plotting against you.“

Með lögum skal land byggja

Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða.

Þessi merkilegu orð eru úr Njáls sögu og þau eru sönn. Einkunnarorð íslensku lögreglunnar eru fólgin í fyrri hlutanum, en sá seinni hefur tilhneigingu til að gleymast. Það er eitt og sér til umhugsunar.

Ólög eru vond lög. Vond lög eru til dæmis þau lög sem búa til tvær þjóðir í einu landi. Við getum nefnt kvótann. Líka lög sem segja að auðmenn og efnafólk greiði miklu lægra hlutfall tekna sinna til samfélagsins en allur almenningur. Hér er ég að tala um fjármagnstekjuskatt. Ekki skárri eru þær reglur sem gera sama fámenna hópnum kleift að fela fjármuni í aflandsfélögum; hvort heldur fyrir skattyfirvöldum eða samfélaginu í heild. Þetta eru ólög. Þetta er núna.

Fleira gagnlegt er í fornum ritum. Til að mynda í Íslendingabók þar sem haft er eftir Þorgeiri Ljósvetningagoða:

Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.

Þetta er að opinberast núna fyrir íslenskum almenningi. Lögin eru sundur slitin. Fámennur hópur efnafólks hefur lögbundin forréttindi fram yfir allan almenning. Sami fámenni hópur berst um á hæl og hnakka til að viðhalda þeim forréttindum og þeirri yfirburðastöðu sem honum eru færð í lögum. Þeim sömu lögum og sumir segja vera grundvöll eigin siðferðis. Þetta fólk hefur slitið sundur friðinn.

Nú stendur yfir gróf atlaga þessa forréttindafólks að almenningi í landinu, í skjóli æðstu embætta okkar sjálfra.

Enginn ætlar að missa af Kastljósinu. Enginn ætti heldur að láta fundinn á Austurvelli á morgun fram hjá sér fara. Sýnum peningaelítunni og fótgönguliðum hennar að okkur er alvara!

Góð tíðindi úr Straumsvík

Það er skiljanlegt að fólk ekki aðeins undrist heldur fordæmi verkfallsbrot stjórnenda álversins í Straumsvík. Nú mega víst einhverjir úr hópi yfirmanna sjá um að hífa ál í skip.

Þegar að er gáð kynnu eftir sem áður að felast nokkuð góð tíðindi í þessari stöðu.

Stjórnendur álversins tala um að „bjarga verðmætum“. Já, víst eru þetta verðmæti. Og verðmætin eru all nokkur að mati stjórnenda álversins. Að minnsta kosti svo mikil að starfsmenn með allt að sex milljóna króna mánaðarlaun ganga nú í störf hafnarverkamanna.

Hér má sjá glöggt dæmi um það hversu mikils virði stjórnendur álversins telja störf hafnarverkamanna vera. Og vel að merkja erum við hér að tala um algerlega reynslulaust fólk. Þess vegna hafa stjórnendur álversins í Straumsvík sett áhugavert fordæmi. Byrjunarlaun óreynds hafnarverkamanns eru metin til forstjóralauna sem skv. tekjublöðum leggja sig á sex milljónir á mánuði. Óvænt og um leið ótrúlegt innlegg í kjarabaráttu starfsmanna í álverinu. Og fyrst það er sex milljóna króna mánaðarlauna virði að skipa áli út í skip, að „bjarga verðmætum“, þá er það tæplega minna virði að búa verðmætin til. Vonandi á allt almennt starfsfólk gott í vændum.

Talsmanni álversins hefur orðið tíðrætt um að fá að „sitja við sama borð“. Nú blasir við öllum að stjórnendur álversins geta ekki verið minni menn en svo að bjóða starfsfólkinu í Straumsvík að sitja við sama borð og þeir sjálfir þegar kemur að launum.

Svo að lokum. Það er vafalaust hægt að verða fúslega við þeirri meginkröfu álversins að fá að „sitja við sama borð“ og aðrir. Það má gera í launum sem að framan greinir. Einnig mætti álverið – og önnur stóriðja – borga sama verð fyrir raforkuna sem kreist er úr íslenskri náttúru og venjulegt íslenskt heimili þarf að greiða. Ívilnanir og afslættir sem félagið hefur fengið í gegnum tíðina getur fyrirtækið síðan endurgreitt smátt og smátt þar til það telur sig loksins komist á þann stað við borðið sem venjulegt fólk situr alla jafna, án þess að vera sífellt að vorkenna sér á opinberum vettvangi.

Er annars einhver ástæða til að vorkenna slíkum aðila? Fyrirtæki sem telur ekki eftir sér að kosta hálfum milljarði króna í einn starfsmann á árunum frá hruni. Sama fyrirtæki og hefur mánuðum saman haldið hundruðum starfsmanna og samfélagi í gíslingu hugmyndafræði frá tímum iðnbyltingar. Launafólki skal breytt í verktaka, hvað sem það kostar. Fyrir þessa hugmyndafræði leggur fyrirtækið allt í sölurnar. Sparar ekki krónu en kostar miklu til. Ekki aðeins í formi beinharðra peninga, heldur einnig í vaxandi óánægju starfsfólks og samfélags. Orðstír sem var er ekki meir.

Fyrirfram hefði mátt búast við að a.m.k. þetta síðara, starfsánægja og orðstír, þætti einhvers virði. En stjórnendur í Straumsvík hafa þegar sýnt að þeir eru tilbúnir að ganga ótrúlega langt til að þjóna hugmyndafræði sem hvergi ætti að finnast nú á dögum, nema í sögubókum.