Staðreynd: Jörðin er flöt

Það er staðreynd að jörðin er flöt. Það er staðreynd að brauðmolakenningin virkar. Það er staðreynd að mín skoðun er staðreynd.

Þennan söng mætti kalla einkennislag íslenskra frjálshyggjumanna. Ímyndun og óskhyggja sett fram sem staðreynd, án tillits til röksemda, gagna, lærdóma reynslunnar eða einfaldlega veruleikans eins og hann blasir við okkur flestum.

Nýleg dæmi eru um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar vill fyrrverðandi menntamálaráðherra gera grundvallarbreytingar á grundvelli hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. Nú síðast ríður prófkjörsframbjóðandi úr sama flokki fram á völlinn á flokkslínu frjálshyggjunnar:

„Það er staðreynd að yfirgnæfandi meirihluti námsmanna mun verða í betri fjárhagslegri stöðu verði frumvarpið samþykkt.“

Þetta má til dæmis umorða svo:

Mín skoðun er staðreynd. Það er staðreynd.

Frumvarp fyrrverðandi menntamálaráðherra um breytingar á LÍN kann að fela í sér jákvæða þætti eða hugmyndir sem byggja mætti á til lengri tíma. Það er ástæðulaust að hafna því með öllu fyrirfram. Þar eru einnig ýmis atriði sem kalla á nánari athugun. Þar er nefnilega ýmislegt að finna sem við fyrstu sýn, og raunar nánari skoðun, vegur að sjálfum grundvelli menntakerfisins: Jafnrétti til náms.

Lítum aðeins á tvennt: Til stendur að afnema tekjutengingu við endurgreiðslu á lánum LÍN. Til stendur að hækka vexti af lánum LÍN um 300% Hvorug þessara tillagna er rökstudd með sannfærandi hætti í gögnum frá Illuga Gunnarssyni.

Lítum á eina mikilvæga staðreynd sem skiptir verulegu máli í þessu sambandi. Muninn á launum karla og kvenna.

Konur á aldrinum 25-29 ára fá almennt 64 þúsund krónum lægri laun á mánuði en karlkyns jafnaldrar. Það slagar upp í 800 þúsund króna launamun á ári. Á þessu aldursbili geta karlar reiknað með að fá fjórum milljónum króna meira í launaumslagið en konur.

Konur á aldrinum 30-34ra ára fá almennt 105 þúsund krónum minna á mánuði en karlkyns jafnaldrar. Árlegur launamunur er hátt í ein komma þrjár milljónir króna á ári. Á þessu aldursbili nemur launamunurinn yfir sex milljónum króna.

Hvernig er hægt að halda því fram að konur standi jafnfætis körlum þegar kemur að endurgreiðslu námslána? Hvernig er hægt að halda því fram að flokkslína frjálshyggjumanna vegi ekki að jafnrétti til náms?

Svarið er einfalt. Hagur námsmanna mun að sjálfsögðu vænkast í heimi ímyndunar og óskhyggju, þar sem:

Það er staðreynd að jörðin er flöt. Það er staðreynd að brauðmolakenningin virkar. Það er staðreynd að mín skoðun er staðreynd.

Og 0,3 prósent íslensku þjóðarinnar lifðu hamingjusöm til æviloka. Köttur út’í mýri osfrv.

„Höldum áfram að berjast. Við verðum“

Screen Shot 2016-05-02 at 16.26.06 1

„Er þetta samfélagið sem ég vil ala börnin mín upp í? Er öllum bara skítsama um að fólk sé niðurlægt á hverjum degi? Ég skammast mín í dag fyrir að vera Íslendingur og það er sárt.“

Þessi orð lét Hjördís Heiða Ásmundsdóttir falla við mótmælastöðu utan við húsnæði Tryggingastofnunar ríkisins fyrr í vor. Hún lýsti þar úr hjólastól sárum vonbrigðum með aðgerðarleysi og áhugaleysi.

Sem betur fer virðist blóðið samt renna í Íslendingum. Það sýna kröftug mótmæli undanfarið í kjölfar frétta úr Panamaskjölunum. Við verðum samt sem áður að gefa gaum að orðum Hjördísar Heiðu. Við getum gert svo miklu miklu betur.

Við hreykjum okkur af frábærum lífsgæðum. Og því er ekki að neita að fyrir marga eru þau sannarlega fyrir hendi. En allt of mörg verða útundan. Og við sættum okkur við þjóðskipulag sem hyglar fáum á kostnað flestra. Samfélag sem hampar auðvaldinu. Það er löngu tímabært að breyta.

Við hreykjum okkur af mesta kynjajafnrétti í heimi. Samt er það ekkert jafnrétti. Það er eitthvað mikið að þegar við metum framlag kvenna almennt minna en karla. Við höfum mikið verk að vinna. Okkur skortir ekki tækifærin og heldur ekki viljann. Við þurfum að ganga til verka. Og verkefnin eru miklu fleiri.

Gleymum heldur ekki varðhundum skattaskjólanna sem ríghalda örvæntingarfullum krumlum í ráðherrastólana. Til hvers? Svo þeir geti geti haldið áfram með nýfrjálshyggjuprógrammið. Einkavæðing grunnstoða á borð við raforkukerfið, bankasala, sjúklingagjöld í veldisvexti, markvissar fjárhagslegar hindranir í menntakerfinu, einkavæðing skóla án umræðu, kverkatakið á almannaútvarpinu. Listinn er miklu lengri. Ekkert á hinum þokukennda verkefnalista hinnar umboðslausu ríkisstjórnar horfir til framfara fyrir íslenskan almenning. Augljós spilling og áberandi skortur á auðmýkt og siðferðisþreki bætir seint það sem vont var fyrir.

Hér þarf nýjar hugmyndir. Nýjan innblástur. Nýjar aðferðir. Nýtt þing og nýja stjórn. Nýtt siðferði. Og tala nú ekki um stjórnarskrá.

Við búum yfir þessu öllu nú þegar og meiru til.

Í landinu höfum við háð þrekmikla baráttu gegn auðvaldi og frekju þeirra fáu sem telja sig eiga tilkall til alls. Ekki aðeins hinna efnislegu gæða, heldur krefjast þeir einnig þess að fá að stýra hugsunum okkar, hugmyndum og tjáningu. Það er ekki í boði. Tími breytinga er genginn í garð. Við finnum þetta hvert hjá  öðru, þegar við upplifum samstöðu og finnum fyrir vorinu, líka í hjartanu. Ekki síst þegar kraftmikið fólk eins og Hjördís Heiða blæs okkur andann í brjóst með orðum sem ég vil gera að mínum:

„Ég bið ykkur innilega, hvert og eitt ykkar: Haldið áfram í vonina og höldum áfram að berjast. Við verðum. Þetta snýst um mannréttindi hvers og eins einasta. Stöndum saman!”

Leiðari úr 1. maí.

Viðskiptafélagar

Það vill gleymast en stundum tengjast menn nánari böndum en liggja á yfirborðinu. Þó kemur fyrir að eitthvað af greftrinum sem kraumar undir niðri vellur upp á yfirborðið. Þannig rifjast þetta upp sem fjallað var um í DV áður en það var tekið yfir af aðilum nátengdum Framsóknarflokknum:

Bjarni var einn þriggja stjórnarmanna frá eignarhaldsfélaginu BNT sem skrifaði upp á umboðið sem veitti honum sjálfum heimild til að veðsetja hlutabréfin í Vafningi, sem hélt utan um fasteignaviðskipti með lúxusíbúðir í Makaó suður af Kína. Hinir tveir mennirnir voru stjórnarmennirnir Jón Benediktsson og Gunnlaugur Sigmundsson, sem er þekktur athafnamaður og meðal annars faðir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins.

Já. Bjarni Benediktsson og Gunnlaugur Sigmundsson voru saman í bissness. Og engum smá bissness.

„Þetta var rosa skemmtilegur dagur og flott flétta.“

Sagði Gunnlaugur.

Í þetta sinn daginn sem tugþúsundir mótmæltu aflandsstjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna. Daginn sem Sigmundur Davíð sagði ekki af sér. Gunnlaugur er ekki ókunnugur skattaskjólafélögum, ekki frekar en Sigmundur Davíð og  Bjarni Benediktsson. 

Ekki er annað að heyra en að þessum félögum finnist bara í góðu lagi að geta sjálfir komið við á aflandseyjunum þegar það hentar þeim sjálfum. Skattaskjólunum sem grafa undan lýðræði. Grafa undan velferðarsamfélaginu og auka ójöfnuð í heiminum.

Er þetta sá félagsskapur sem við viljum að stýri landinu?

 

 

 

Plott og paranoja

Huldufélag Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og það allt er ekki bara eins og að horfa á grínþátt, heldur er eins og heldur persónur upplifi sig hreinlega sem skáldaða karaktera úr einhverju eins og Yes minister.

Þótt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi afhjúpað sjálfan sig í viðtali sem sent var út í Kastljósinu, virðist það hafa takmörkuð áhrif á hans nánustu samstarfsmenn og flokksfélaga, hvað þá sjálfan hann.

Fólk hlýtur að spyrja sig, ekki bara um siðferði, heldur hreinlega um veruleikaskyn þessa fólks.

Grípum niður í viðtal sænsks fréttamanns við Sigmund Davíð þar sem hann er spurður um huldufélagið Wintris:

Bergman: Herra for­sæt­is­ráðherra, hvað get­urðu sagt mér um fyr­ir­tækið Wintris?

Sig­mund­ur: Umm, það er fyr­ir­tæki, ef ég man það rétt, sem er tengt við eitt þeirra fyr­ir­tækja sem ég gegndi stjórn­ar­mennsku í og það hafði viðskipta­reikn­ing, sem eins og ég minnt­ist á, hef­ur verið tal­inn fram á skatt­skýrslu frá því það var stofnað.

(fengið af mbl.is)

Þessi ummæli ganga gegn skjalfestum staðreyndum og raunar yfirlýsingum Sigmundar Davíðs sjálfs. Hér segir maðurinn ósatt í viðtali við sænskan fréttamann og gengur skömmu síðar út úr viðtali fyrir augum allra landsmanna og allmargra annarra.

Annað sem var nýtt var þessi ágæti dagur 31. desember 2009, þegar Sigmundur Davíð seldi 50% hlut sinn í aflandsfélaginu Wintris inc. á einn Bandaríkjadal. (Það eru tæplega minni tíðindi að maður selji hlut í aflandsfélagi sem hann átti ekki til að byrja með, sé nokkuð að marka spunann úr Sigmundi Davíð).

Þriðja sem var nýtt voru hinar óyggjandi staðreyndir, sem eru skjalfestar í gögnum frá lögmannsstofunni Mossac Fonseca, að Sigmundur Davíð var eigandi að 50% hlut í huldufélaginu fram að þeim degi. Hann gerði ekki grein fyrir því í aðdraganda þingkosninganna 2009 og ekki heldur í hagsmunaskráningu þingmanna eftir að hann tók þar sæti.

Fjórða. Sigmundur Davíð var með prókúru á þetta huldufélag eftir að hann lét hlutinn fyrir einn dal. Er svo ef til vill enn?

Fimmta. Venslamaður Sigmundar var að sýsla í þessum málum fyrir hann. (Raunar sá hinn sami sem stýrði bankanum sem slapp við bankaskattinn. Er það önnur saga?).

Þetta er afurð viðamikilla rannsókna blaðamanna sem staðið hafa mánuðum saman, ekki aðeins hérlendis, heldur um allan heim.

Svart er hvítt, ekkert nýtt?

Veruleiki ráðherra og annarra kjörinna fulltrúa Framsóknarflokksins er að gagnrýna Ríkisútvarpið. Líklega enn ein loftárárásin. Eða hvað? Eru allir helstu fjölmiðlar heimsins í víðáttumiklu samsæri gegn Sigmundi Davíð og Framsóknarflokknum? Og ekki aðeins það, heldur einnig forystumönnum í Sjálfstæðísflokknum og borgarfulltrúum sömu tveggja flokka?

„You would be paranoid if everyone was plotting against you.“

Með lögum skal land byggja

Með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða.

Þessi merkilegu orð eru úr Njáls sögu og þau eru sönn. Einkunnarorð íslensku lögreglunnar eru fólgin í fyrri hlutanum, en sá seinni hefur tilhneigingu til að gleymast. Það er eitt og sér til umhugsunar.

Ólög eru vond lög. Vond lög eru til dæmis þau lög sem búa til tvær þjóðir í einu landi. Við getum nefnt kvótann. Líka lög sem segja að auðmenn og efnafólk greiði miklu lægra hlutfall tekna sinna til samfélagsins en allur almenningur. Hér er ég að tala um fjármagnstekjuskatt. Ekki skárri eru þær reglur sem gera sama fámenna hópnum kleift að fela fjármuni í aflandsfélögum; hvort heldur fyrir skattyfirvöldum eða samfélaginu í heild. Þetta eru ólög. Þetta er núna.

Fleira gagnlegt er í fornum ritum. Til að mynda í Íslendingabók þar sem haft er eftir Þorgeiri Ljósvetningagoða:

Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.

Þetta er að opinberast núna fyrir íslenskum almenningi. Lögin eru sundur slitin. Fámennur hópur efnafólks hefur lögbundin forréttindi fram yfir allan almenning. Sami fámenni hópur berst um á hæl og hnakka til að viðhalda þeim forréttindum og þeirri yfirburðastöðu sem honum eru færð í lögum. Þeim sömu lögum og sumir segja vera grundvöll eigin siðferðis. Þetta fólk hefur slitið sundur friðinn.

Nú stendur yfir gróf atlaga þessa forréttindafólks að almenningi í landinu, í skjóli æðstu embætta okkar sjálfra.

Enginn ætlar að missa af Kastljósinu. Enginn ætti heldur að láta fundinn á Austurvelli á morgun fram hjá sér fara. Sýnum peningaelítunni og fótgönguliðum hennar að okkur er alvara!

Góð tíðindi úr Straumsvík

Það er skiljanlegt að fólk ekki aðeins undrist heldur fordæmi verkfallsbrot stjórnenda álversins í Straumsvík. Nú mega víst einhverjir úr hópi yfirmanna sjá um að hífa ál í skip.

Þegar að er gáð kynnu eftir sem áður að felast nokkuð góð tíðindi í þessari stöðu.

Stjórnendur álversins tala um að „bjarga verðmætum“. Já, víst eru þetta verðmæti. Og verðmætin eru all nokkur að mati stjórnenda álversins. Að minnsta kosti svo mikil að starfsmenn með allt að sex milljóna króna mánaðarlaun ganga nú í störf hafnarverkamanna.

Hér má sjá glöggt dæmi um það hversu mikils virði stjórnendur álversins telja störf hafnarverkamanna vera. Og vel að merkja erum við hér að tala um algerlega reynslulaust fólk. Þess vegna hafa stjórnendur álversins í Straumsvík sett áhugavert fordæmi. Byrjunarlaun óreynds hafnarverkamanns eru metin til forstjóralauna sem skv. tekjublöðum leggja sig á sex milljónir á mánuði. Óvænt og um leið ótrúlegt innlegg í kjarabaráttu starfsmanna í álverinu. Og fyrst það er sex milljóna króna mánaðarlauna virði að skipa áli út í skip, að „bjarga verðmætum“, þá er það tæplega minna virði að búa verðmætin til. Vonandi á allt almennt starfsfólk gott í vændum.

Talsmanni álversins hefur orðið tíðrætt um að fá að „sitja við sama borð“. Nú blasir við öllum að stjórnendur álversins geta ekki verið minni menn en svo að bjóða starfsfólkinu í Straumsvík að sitja við sama borð og þeir sjálfir þegar kemur að launum.

Svo að lokum. Það er vafalaust hægt að verða fúslega við þeirri meginkröfu álversins að fá að „sitja við sama borð“ og aðrir. Það má gera í launum sem að framan greinir. Einnig mætti álverið – og önnur stóriðja – borga sama verð fyrir raforkuna sem kreist er úr íslenskri náttúru og venjulegt íslenskt heimili þarf að greiða. Ívilnanir og afslættir sem félagið hefur fengið í gegnum tíðina getur fyrirtækið síðan endurgreitt smátt og smátt þar til það telur sig loksins komist á þann stað við borðið sem venjulegt fólk situr alla jafna, án þess að vera sífellt að vorkenna sér á opinberum vettvangi.

Er annars einhver ástæða til að vorkenna slíkum aðila? Fyrirtæki sem telur ekki eftir sér að kosta hálfum milljarði króna í einn starfsmann á árunum frá hruni. Sama fyrirtæki og hefur mánuðum saman haldið hundruðum starfsmanna og samfélagi í gíslingu hugmyndafræði frá tímum iðnbyltingar. Launafólki skal breytt í verktaka, hvað sem það kostar. Fyrir þessa hugmyndafræði leggur fyrirtækið allt í sölurnar. Sparar ekki krónu en kostar miklu til. Ekki aðeins í formi beinharðra peninga, heldur einnig í vaxandi óánægju starfsfólks og samfélags. Orðstír sem var er ekki meir.

Fyrirfram hefði mátt búast við að a.m.k. þetta síðara, starfsánægja og orðstír, þætti einhvers virði. En stjórnendur í Straumsvík hafa þegar sýnt að þeir eru tilbúnir að ganga ótrúlega langt til að þjóna hugmyndafræði sem hvergi ætti að finnast nú á dögum, nema í sögubókum.

Þrifin í Landsbankanum

Hvað á að segja um framgöngu æðstu stjórnenda Landsbankans?

Meðaldagvinnulaun þeirra sem starf við ræstingar eru 262 þúsund krónur á mánuði og helmingur þeirra er undir 250 þúsundum.

Segir í frétt Rúv um láglaunafólk innan Alþýðusambandsins. Við sjáum öll ef gólfið hefur ekki verið skúrað eða ruslafatan tæmd. Lyktin af salernunum lýgur ekki.

Frammistöðu æðstu stjórnenda Landsbankans í Borgunarmálinu má etv. líkja við að mæta til vinnu að morgni dags og horfa yfir útsporuð gólf, fullar ruslafötur. Óþefurinn af klósettinu sýnir að þessir herrar hafa ekki einu sinni haft fyrir því að sturta niður, hvað þá meira.

Enginn efastum gildi og mikilvægi starfa ræstingafólks; oftast konur vel að merkja. Samt sem áður eru það þessi störf sem fyrst fá að kenna á sparnaði eða niðurskurði, ýmist með atvinnumissi eða einkavæðingu, samhliða viðbótarálagi á þá sem náðarsamlegast fá að strita meira fyrir sama skítakaupið. Og gleymum því heldur ekki að ef sú sem þrífur gerir það illa, þá er hún rekin. Þau verðmæti sem fólgin eru í störfum ræstingarfólks eru vanmetin og á að meta að verðleikum.

En hvað með ofmetnu og ofhöldnu toppana í Landsbankanum? Reka þá?

Yrðu það ekki hreinlega maklegri viðurlög að færa laun þeirra á par við þær tölur sem nefndar eru hér að ofan. Þannig geta þeir þjónað út sinn ráðningartíma. Stjórnarmenn geta fengið hlutfall af því fyrir að mæta á staka fundi með lokað fyrir augu og eyru. Nokkuð sem venjulegt fólk getur seint leyft sér.

Ræstingarfólk vinnur samfélaginu meira gagn og á meira skilið en þeir sem á bak við luktar dyr láta þínar eignir í hendur útvalinna og segjast svo ekki hafa vitað betur.  

12 – 1

Stundum er hægt að segja ákaflega mörg orð án þess að það merki nokkuð. Stundum getur orðaflaumurinn merkt akkúrat hið gagnstæða:

Stærstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa allar miðað að því að rétta stöðu heimilanna og bæta kjörin í landinu. Fjárlagafrumvarpið er mikilvægur liður í framhaldi þeirrar vinnu. Með því er ráðist í verulegar breytingar á skattlagningu og gjaldtöku ríkisins með það að markmiði að styrkja heimilisbókhald fólks með millitekjur og lægri tekjur. Með því má áfram gera ráð fyrir að kjör allra batni, en þó sérstaklega millitekju- og láglaunafólks, og þannig batni lífskjör á Íslandi áfram en um leið aukist jöfnuður áfram. 

Sagði forsætisráðherrann í stefnuræðu sinni á Alþingi í vikunni.

„en um leið aukist jöfnuður áfram“ Hvað merkir það í munni forsætisráðherra? Lítum á mynd:

Screen Shot 2015-09-10 at 2.50.55 PM

Þetta er glæra 28 úr kynningu fjármálaráðherra á frumvarpi til fjárlaga næsta árs. Til stendur að lækka tekjuskatt lítillega núna en markmið þessara manna er að fletja út þrepaskipta tekjuskattskerfið. Þetta er ekki í anda jöfnuðar. Þvert á móti eykur aðgerðin ójöfnuð.

Sá sem fær 700 þúsund á mánaðarlaun mun nefnilega fá 12 sinnum meira á mánuði en láglaunamanneskja með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun. Manneskja með 700 þúsund fær næstum hálf mánaðarlaun lágtekjumanneskjunnar frá ríkisstjórninni á ári. Hin fær þúsundkall á mánuði, sem dugar ekki fyrir bíómiða. 

Svona er „jöfnuður“ ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

 

Á Hafnarfjörður engan vin?

Það virðist ekki blása byrlega fyrir Hafnarfirði þessi misserin. Það er eins og hvert áfallið á fætur öðru dynji yfir bæjarfélagið, sem fyrir er eitt hið skuldsettasta í landinu.

Nýlega var tilkynnt um að lyfjaframleiðslufyrirtæki sem einu sinni var íslenskt ætlaði að draga svo saman seglin að 300 störf hverfa úr landi. Stálskip lögðu niður útgerð og megnið af kvóta og heill togari hurfu úr bænum í svip. Ein fjölskylda græðir en samfélagið tapar. Sjávarútvegsráðherrann vildi ekki virða anda laga í því máli um forkaupsrétt bæjarfélagsins, en tók að auki, án umræðu og samráðs, ákvörðun um að loka stórum vinnustað hér í bænum, Fiskistofu, og flytja norður í land með manni og mús. Á endanum var bakkað út úr því, en það gerðist ekki baráttulaust.

Þetta er greinilega í tísku hjá hinni hægri sinnuðu ríkisstjórn því menntamálaráðherrann fylgir því fordæmi að umræða og samráð séu óþörf. Hann ákvað að gefa Iðnskólann í Hafnarfirði til hins einkarekna Tækniskóla í Reykjavík og senda hátt í 700 milljónir króna af skattfé í þessa stofnun sem LÍÚ eða arftakar þess félagsskapar hafa mest um að segja. Ekki er enn kominn fullur botn í hvort til standi að Hafnfirðingar eigi að borga með þessari einkavæðingu, vel á hálfan milljarð króna næstu árin auk því sem óvíst er um þetta skólastarf í bænum í framtíðinni. Enn má minna á starfsemi sýslumannsembættið hér í bæ eða tómt húsnæði St. Jósefsspítala.

Við aðstæðum sem þessum er aðeins eitt svar. Að standa saman!

Þess vegna er svo grátlegt að horfa upp á meirihluta Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar ganga fram í sama stíl og hér hefur verið rakið. Að taka gerræðislegar og afdrifaríkar ákvarðanir án umræðu og samráðs, rétt eins og skoðanabræðurnir í ríkisstjórninni. Ekki aðeins er það valdníðsla sem fólgin er í þeirri aðferð að keyra í gegn umdeilt mál um breytingar á stjórnskipan bæjarins með engum fyrirvara. Afleiðingarnar eru líka að fólk missir vinnuna.

Hver verða næstu skref? Á að selja frá sér drykkjarvatnið eins og þeir gerðu snillingarnir í Keflavík? Og eru þeir samt á hausnum.

Blessunarlega þá er ekki allt á niðurleið eða að hrynja ofan í svartnættið. Svo vill til að í bænum er blómleg atvinnustarfsemi í ýmsum greinum. Auk þess hafa ýmis stórfyrirtæki valið sér þar stað með miklum umsvifum. Valitor og Icelandair mætti nefna. Ferðamenn streyma hingað til lands. Ekki vantar tækifærin.

Mestu máli skiptir að hér skortir fólk hvorki áræðni, þor né frumkvæði. Það er sjaldan mikilvægara en þegar aðrir bregðast.

Bylting og barnaföt

Ég hugsa stundum um gildi. Samfélagið og gildi. Af hverju eru hlutirnir eins og þeir eru? Og hver ræður?

Ég hefði fyrirfram haldið að fjögurra ára krakki væri svona nokkurn veginn eins og fjögurra ára krakki, skiptir engu máli með kynið. Krakki er bara krakki.

Þetta er hins vegar engan veginn víst. Að minnsta kosti ekki ef litið er til fata sem í boði eru í verslunum. Það á bæði við verslanir hérlendis sem erlendis. Þetta er alþjóðlegt, allavega vestrænt og þar erum við.

Stelpum er almennt ætlaður tiltekinn fatnaður og strákum sömuleiðis. Það er með öðrum orðum almennt gert ráð fyrir sérstökum stelpufötum og sérstökum strákafötum. Þetta á ekkert frekar við fjögurra ára frekar en núll ára, eins, tveggja þriggja, fimm, sex eða sjö, og svo framvegis, svo því sé til haga haldið. Nú er ég ekki að tala um mun á pilsi og buxum sem eru eldri hefðir um einhvers konar stelpu/stráka dæmi, enda þótt til að mynda Skotum finnist karlmennska sjaldan meiri en einmitt í hinu fyrrnefnda.

Þetta sést hvað greinilegast í ólíkum litasamsetningum og munstrum. Þar eru rauðleitir, oft bleikir litir, mjög áberandi hvað varðar fatnað sem sérstaklega er ætlaður stelpum. Ekki aðeins það. Þegar litið er til mynda og munstra getur verið algengt að sjá fiðrildi eða blóm. Á strákaflík mætti kannski finna myndir af bílum eða vinnuvélum. Risaeðlur eða ljón eru líka algeng. Blár er algengur litur.

Litaskipting er líka mjög áberandi í markaðsefni fyrirtækja, svo dæmi sé tekið. „Gefins“ hjálmar eru í ólíkum litum. Stelpum eru ætlaðir bleikir hjálmar og strákum bláir. Þar liggja kannski einhver göfug öryggissjónarmið að baki. Kannski ekki.

En þetta er ekki aðeins spurning um litir og myndir á fötum. Snið fata eru oft ólík eftir því hvort þau eru ætluð strákum eða stelpum. Föt sem ætluðu eru börnum af karlkyni eru oftar en ekki víðari en föt sem ætluð eru jafn stórum stúlkubörnum á sama aldri við sama þroska í sama leik. Af hverju ætti fjögurra ára stelpa að ganga í þrengri fötum en fjögurra ára strákur?

Þetta með munstur og snið er ekki bara bundið við föt. Þetta er líka bundið við til dæmis afþreyingarefni og bækur og leikföng ýmiss konar. Stelpudót er oft mömmudót, snyrtidót. Strákum boðið upp á bíla og byssur.

Nýlega varð forsætisráðherranum tíðrætt um „gildi“ sem væru í hættu og þyrfti að varðveita. Ef svona hugsanalaus eða úthugsuð kynjaskipting í barnafötum og dóti telst til slíkra gilda, þá hef ég satt best að segja engan áhuga á að varðveita þau.

Ég bjó þau ekki til og líkast til þú ekki heldur lesandi góður. Þá vil ég frekar breytingu. Svei mér þá. Ég vil byltingu.