Þorskar á þurru landi

Sterk bein eru nauðsynleg til þess að stíga það skref að fara í verkfall. En sterk bein eru ekki nóg til að standa í lappirnar. Málstaðurinn þarf að vera skýr og almenningur þarf að styðja málstaðinn og aðgerðirnar.

Nú hafa sjómenn verið í verkfalli í tvo mánuði. Þetta hefur haft áhrif víða. Kröfur sjómanna gagnvart útgerðinni hafa verið réttlátar, sanngjarnar og löngu tímabærar. Þess vegna hefur fólk upp til hópa staðið með sjómönnum.

Sumir sjómenn eru hálaunamenn miðað við marga. Enginn efast um að þeir hafi unnið fyrir sínum launum. Og þótt margar krónur geti skilað sér í launaumslagið eftir góðan túr, þá hefur útgerðin engan rétt til að hlunnfara þá.

Því spyr ég:

  • Hvers vegna komast sumar útgerðir upp með það að selja sjálfum sér aflann þegar komið er að landi? Það endurspeglast í lægri launum sjómanna sem ekki fá markaðsverð.
  • Hvernig stendur á því að 30% af aflaverðmæti séu tekin til hliðar fyrir olíukostnað? Er það ekki útgerðarmaðurinn sem fær hagnaðinn? Sá sem tekur áhættuna? Hví skyldu launamenn standa straum af kostnaði atvinnurekandans? Og fyrst svo er, hvers vegna er sá kostnaður ekki greiddur samkvæmt reikningi? Mig langar í alvöru að vita hvað útgerðin hefur hirt mikið af sjómönnum með þessu hætti. Sjómenn hafa samt bara beðið um að þetta verði lækkað um 3 prósentustig.
  • Hvers vegna eiga sjómenn að greiða „nýsmíðagjald“? Ekki fá þeir hlut í skipunum. Ekki fá þeir hlut í ofurhagnaði útgerðarmannanna. Þeir fá ekki einu sinni hlut í öllum aflanum. Og heldur ekki öllu verðinu.

Útgerðaraðallinn er ríkasta prósentubrotið á Íslandi. Þetta er fámennur hópur fólks sem undanfarin ár hefur grætt svo mikið á sameiginlegri auðlind, að hann á hvorki skúffur né vasa lengur undir allar arðgreiðslurnar. Enda hefur sýnt sig að undanfarin ár hafa útgerðarmenn verið að kaupa upp annan rekstur í landinu, gildir einu hvort það sé olíufélag, túnfiskur í olíu eða allt þar á milli. Þetta er útgerðaraðallinn að gleypa upp fyrir allra augum.

Þetta er búið að vera borðleggjandi. Sanngjarn og góður málstaður og eðlilegar kröfur á fámennan hóp sem veit ekki aura sinna tal.

En hvað er nú í gangi? Skyndilega horfir dæmið öðruvísi við. Samninganefndir sjómanna og útgerðarinnar búnar að ná saman. Enginn má vita um hvað. Nema eitt. Sjómannaforystan og útgerðaraðallinn ákveða allt í einu að snúa bökum saman og senda kröfu á almenning.

Sko. Mig langar að vita hvað hvað forystu sjómanna gengur til með því að ganga í bandalag við þá sem hafa neitað að verða við ótrúlega hóflegum og sanngjörnum kröfum. Útgerðarmenn hafa neitað að semja í meira en sex ár. Bara rétt fyrir jól neituðu þeir öllu nema sjómenn seldu frá sér veikindarétt. Eru menn búnir að gleyma þessu?

Allar kröfurnar á hendur útgerðinni eru réttlátar og tímabærar. Og það er eðilegt og sjálfsagt að útgerðarmenn standi straum af útgerðarkostnaði, hvort sem hann heitir olía eða fæði.

Hvað fær sjómannaforystuna allt í einu til að beina kröfum sínum að öðru launafólki í landinu? Er hún búin að gleyma landverkafólkinu og öllum hinum sem hafa stutt sjómenn í verkfalli, en fá nú eins og blauta tusku framan í sig kröfu um að niðurgreiða launakostnað milljarðamæringa?

Ég er tilbúinn til að styðja sjómenn í hverri kröfu og hverju skerfi sem beint er að þeirra viðsemjendum, útgerðinni. Ég get ekki stutt sjómenn í kröfugerð á hendur íslenskum almenningi. Það er fjandanum erfiðara að standa með þeim sem ekki standa með sjálfum sér. 

 

Hells Angels og handklæði Árna Magnússonar

Hvað eiga Donald Trump, Hells Angels, handklæði Árna Magnússonar og Fjölmiðlanördar á Facebook sameiginlegt?

Svona furðuspurning veldur eðlilega heilabrotum. Fljótt á litið hlýtur svarið að vera: Ekki neitt. Hvers konar asnaspurning er þetta eiginlega?

En þau sem nenna að renna yfir stuttan pistil munu von bráðar rekast á lausn við gátunni.

Donald_Trump_Phoenix_2016

Það hefur verið nóg að gera á mörgum stöðum. Meðal annars hjá Donald Trump sem pælir í ráðherrum í Bandaríkjunum sem líka er heimaland Hells Angels. Árnastofnun hin íslenska birtir á netinu skemmtilegt myndskeið til að kynna nýjan vef. Og Fjölmiðlanördar hafa skeggrætt um þýðingu á einu orði úr einni frétt úr einum íslenskum miðli.

Vituð ér enn eða hvað?  

Undarleg þýðing

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, íhugar nú að bjóða Söruh Palin aðild að ríkisstjórn sinni með því að gera hana að ráðherra mála sem tengjast uppgjarahermönnum [svo!].

Svona hefst frétt á Vísi, sem í sjálfu sér er ekki merkilegri en aðrar fréttir sem sagðar hafa verið af upphafi Trump tímabilsins í Bandaríkjunum, sem senn rennur upp.

Þessi frétt, öllu heldur orðið uppgjafahermaður, sem er þýðing á orðinu veteran úr bandarískri frétt, verður tilefni mikilla skoðanaskipta hjá Fjölmiðlanördum á Facebook.

Hvaðan kemur þessi undarlega þýðing að kenna reynslubolta “veteran” við uppgjöf?

Á þessari spurningu hefst langur þráður með mörgum þátttakendum. Nú styttist í lausn gátunnar hér að ofan hjá ansi mörgum má ætla. En svarið er ekki fullkomnað enn.

Framundan er pínulítill leiðangur sem ég vona að reynist lestrarins virði.

Emerítusar

Spurningin í Fjölmiðlanördum er ekki út í bláinn. Við horfum mikið á bíó og erum flest ágætlega verseruð í ensku. Við gerum okkur almennt grein fyrir því að bandarískir tengja orðið veteran ekki beint við uppgjöf eða ósigur eða bara alls ekki. Og í samhenginu fyrrverandi hermaður er ekki hægt að nota orð eins og reynslubolti bara út í bláinn.

Einn þátttakandi í skeggræðum Fjölmiðlanörda stingur upp á því að í þýðingu á orðinu kunni að felast einhver vanskilningur á merkingu þess. Það mætti ef til vill taka undir það í fljótu bragði. Hver hér veit eitthvað um her? Getur þetta ef til vill haft með einhverjar breytingar á eðli hermennsku í aldanna rás? LIfðu þeir einir af hernað sem gáfust upp … eða svo gæti manni dottið í hug. En hitt vitum við þó að veteran í enskunni er notað um alls konar emerítusa úr ýmsum greinum, þótt við eigum ekkert nákvæmlega samsvarandi hugtak. … Eða hvað?

Presturinn á Vökuvöllum

Þetta orð virðist ekki koma fyrir í rituðu máli á íslensku fyrr en undir lok 19. aldar. Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans (Árnastofnun geymir hana) á skrásett dæmi frá 1874. Það er úr bókinni Presturinn á Vökuvöllum. The vicar of Wakefield, eftir Oliver Goldsmith (d. 1774). „Snúið úr ensku hefir Davíð Guðmundsson“, segir um þá bók í Gegni.

Í enskum texta þeirrar bókar hjá Gutenberg verkefninu kemur orðið veteran fyrir einu sinni (30. kap.) og á einum stað framarlega orðasambandið „old broken soldier“ (3. kap.). Spurning hvort það tengist þessu eitthvað?

Það verður ekki fundið út úr því á þessum tíma sólarhrings, því þótt í dæmið úr þýðingu Davíðs Guðmundssonar sé að finna á seðli í Ritmálsskránni, litlu pappírsblaði sem geymt er í Grásíðu vestur í bæ, þá er það ekki að finna á vefnum ennþá. Og eins og flestum er kunnugt er bannað að stunda vísindi á ókristilegum tíma hér á landi og öll söfn þess vegna lokuð núna þegar þetta er skrifað að kvöldlagi. Dæmi um orðið er hins vegar til á vefnum. Það finnst í þýðingu á Cicero frá 1982.

Hells Angels

Sjálfur minnist ég orðsins úr Eldfærunum eftir HC Andersen. Steingrímur Thorsteinsson þýddi ævintýrið á íslensku, ásamt fleiri sögum skáldsins danska. Netútgáfan á nokkra texta en Eldfærin eru ekki þar á meðal, svo ég get ekki tékkað á þessu í svipinn.

Danir nota núna almennt veteran held ég, en í orðabókum sést líka sambandið forhenværende soldat ‘fyrrverandi hermaður’. Ég er ekki nógu vel að mér í dönsku (og enn síður 19. aldar dönsku!) til að vera með einhverjar spekúlasjónir upp úr sjálfum mér seint um kvöld.

Á tímarit.is er til eitt dæmi um uppgjafahermann frá síðasta áratug 19. aldar. Annars eru þau fá, fram á fjórða og fimmta áratuginn.

Orðið kemur nokkuð oft fyrir í prentuðum fjölmiðlum eftir það og virðist hafa unnið sér þegnrétt í málinu, og þá sem þýðing á veteran í merkingunni ‘fyrrverandi hermaður’.

Þetta má t.d. sjá mjög skýrt á Vísindavefnum, sem segir svo um stofnun bifhjólasamtaka í Bandaríkjunum:

„Hells Angels eru elstu og áhrifamestu samtök mótorhjólamanna. Þau voru stofnuð í Bandaríkjunum árið 1948 af uppgjafahermönnum.“

Screen Shot 2016-12-01 at 23.26.28

Handklæði Árna Magnússonar

Kannski var hér stokkið yfir læk eftir vatninu. Og þó. Handklæðið liggur enn óbætt hjá Árnagarði og lausnin á gátunni einnig.

Árnastofnun sendi í dag frá sér skemmtilegt myndskeið um handklæði sem allir verða að sjá. Þarna er bent á að íslenskan hefur verið ritmál í þúsund ár og verið töluð í einhverri mynd miklu mun lengur.

Nú er það svo að merking orða getur breyst eða hnikast til í áranna rás. Svo getur verið um blessaðan uppgjafahermanninn. Þegar orðið kemur til sögunnar, eða fer að sjást í íslensku ritmáli (sbr. hér að ofan), getur viðblasandi merking orðsins hafa haft á sér annan blæ en hjá okkur núna. Hvað með uppgjafahermanninn?

Núna virðist það vera nokkuð útbreidd, eða almenn skýring á orðinu að hér sé á ferð sá sem hefur verið sigraður, gefist upp; hvað getur uppgjafa- þýtt annað? Varla snýst þetta um badminton eða tennis? Og slík merking er auðvitað undarleg þegar við vitum hvað orðið veteran þýðir.

Kemur þá til sögunnar fjórða púslið í gátuna, handklæði Árna Magnússonar. Myndskeiðið sem ég nefndi áðan var nefnilega búið til í því skyni að kynna nýjan og stórmerkilegan vef: Málið.

Arni_Magnusson_drawing

Þangað skulum við kíkja og sjá hvað Málið hefur um málið að segja. Þarna fletti ég upp orðinu uppgjafahermaður og fæ niðurstöðuna: „hermaður sem hefur hætt hermennsku“ úr íslenskri nútímamálsorðabók. Ókei. Þetta segir orðabókin á netinu sem enn hefur ekki slitið barnsskónum. En dugar þetta? Erum við ekki enn í sömu sporum?

Hugsum þá um málið og merkinguna sem getur breyst. Pælum líka í því að það eru nokkrar kynslóðir gengnar frá því að Davíð Guðmundsson setti orðið inn í þýðingu fyrir hátt í 150 árum. Sjálfur kom hann í heiminn árið 1834. Stundum þarf maður, í glímunni við svona stöff, að kíkja í prentaðar heimildir. Ég á eina ágæta íslenska orðabók frá 2002 sem byggir að hluta á Orðabók Menningarsjóðs frá 1963. Mikið hlakka ég til þegar allt það dót verður komið inn í Málið.

En þarna finnum við væntanlega loksins svarið, sem kannski hefur allan tímann blasað við. Orðabókin segir okkur að uppgjafa- sé forliður samsetninga um menn sem eru hættir tilteknu starfi eða um hluti sem eru úr sér gengnir (oftast fremur niðrandi). Ókei. Ekki endanlegt svar, en við erum komin örlítið nær. Uppgjafa- er sumsé hægt að setja framan á alls konar fólk sem hefur tekið sér eitthvað annað fyrir hendur án þess að hafa endilega gefist upp á því, þótt það sé vissulega gefið til kynna.

Svarið við gátunni

Flettum upp einu orði í viðbót. Hvað segir um orðið uppgjöf? Getur það falið í sér fleiri en eina merkingu? Já segir orðabókin frá 2002 (1963?). Þær eru allavega fjórar. 

1. Afhending, láta af hendi, þrot, ósigur, guggna, gefast upp.

Þetta virðist afdráttarlaust. Hvernig datt okkur í hug að þýða veteran með þessu orði?

2. hætta einhverju, leggja eitthvað niður, afsögn.

Ó. Þetta segir töluvert aðra sögu. Ég skal hengja við merkingar 3. og 4. Annars vegar að fella niður kröfu, náða. Og svo loks tennis, blak og badminton.

Svarið virðist vera fólgið í númer 2. Hætta, leggja niður, afsögn. Fleira þurfum við held ég ekki í þessu samhengi. Að minnsta kosti virðist ástæðulaust að ætla annað en að Davíð Guðmundsson, samtíma- og sporgöngumenn hans hafi haft þessa merkingu orðsins í huga þegar orðið uppgjafahermaður var búið til.

Samkvæmt heimspekilegum rakvélum má vel sætta sig við þá skýringu. Að minnsta kosti áður en einhver annar og snjallari málfræðingur ákveður að kanna málið betur.

Þangað til þá erum við í öllu falli ríkari vitneskjunni um hvað Donald Trump, Hells Angels, handklæði Árna Magnússonar og Fjölmiðlanördar á Facebook eiga sameiginlegt.

Kennurum kennt um að rústa skólanum

Það hefur verið regla í síðustu samningum að ekkert hafi mátt gera fyrir kennara nema þeir seldu frá sér önnur réttindi. Nú er kennurum stillt upp við nýjan vegg. Til þess að bæta kjör sín eiga kennarar að selja réttindi annarra.

Að sögn Ragn­ars [Þórs Péturssonar] fel­ur samn­ing­ur­inn einnig í sér bók­an­ir um end­ur­skoðun á nú­ver­andi skóla­stefnu, Skóla án aðgrein­ing­ar, sem hef­ur verið nokkuð gagn­rýnd.

segir meðal annars í frétt mbl.is um samninga sem samninganefndir sveitarfélaganna og grunnskólakennara undirrituðu í gær.

Gerum við okkur grein fyrir því hvað er að gerast fyrir framan nefið á okkur. Hér er verið að blanda grundvallarbreytingu á grunnskólunum og tilveru fjölda barna og fjölskyldna þeirra inn í kjarasamning kennara. Á það að ráðast í skammtímasamningi milli kennara og Samtaka sveitarfélaganna hvernig skólastarfi þjóðarinnar verður háttað til framtíðar?

Af hverju erum við stödd á þessum stað? Af hverju er þetta krafa sveitarfélaganna? Hvernig stendur á því að víglínan snýst ekki um að gera leikskólann gjaldfrjálsan og viðurkenna hann í reynd sem fyrsta skólastigið? Hvers vegna er ekki löngu búið að bæta í grunnskólann?

Víglína Halldórs Halldórssonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og formanns Sambands sveitarfélaganna, er nefnilega annars staðar. Hún er við skóla án aðgreiningar. Þetta skiptir máli.

Ég heyrði í Halldóri á Sprengisandi á Bylgjunni fyrir fáum dögum og áður í morgunþætti í Ríkisútvarpinu fyrir nokkrum vikum. Í báðum viðtölum fór hann yfir víðan völl. Sumt sagði hann af viti en annað olli mér áhyggjum.

Nú er komið á daginn að þær áhyggjur áttu við rök að styðjast.

Hann talaði nefnilega mikið um skóla án aðgreiningar. Hann virtist leggja sig um að setja málið á dagskrá og ekki aðeins það, heldur einnig breyta ætti um kúrs. Það sem meira er. Það var alveg ljóst á máli hans að hann ætlaði að bera kennarana fyrir sig til þess að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd. Það gerði hann í báðum þessum viðtölum með því að rifja upp könnun meðal kennara frá 2012. Í Sprengisandsviðtalinu sagði hann að helmingur kennara hefði sagt hvorki né eða verið neikvæðir í garð skóla án aðgreiningar; fjórðungur í hvoru hólfi.

Þarna setti hann á dagskrá að skrúfa fyrir þetta mikilvæga starf, og stillti kennurum upp sem gerendum. Og nú á að fullkomna verkið og láta kennara axla ábyrgðina með því að stilla því upp á móti sanngjörnum og löngu tímabærum kjarabótum.

Ég á þrjú börn í grunnskóla. Úr skólunum heyrir maður enga andstöðu við skóla án aðgreiningar. Þvert á móti styðja þetta allir. Það sem vantar eru sérkennarar, þroskaþjálfar, stuðningsfulltrúar. M.ö.o. úrræðin sem eiga að tryggja að skóli án aðgreiningar virki. Meðan þau skortir þá er álagið á kennarana miklu meira en það ætti að vera. Og þannig á það ekki að vera!

Vera má að einhver hluti kennara sem svaraði könnun fyrir fjórum árum hafi gefist upp gagnvart sveitarfélögunum og hafi aðeins séð lausn í að hætta þessu. Þannig virkar þessi gegndarlausi heilaþvottur um að ekkert sé hægt, af því að það er ekki hægt. Aldrei megi bæta við, aðeins skera niður.

Þetta er sama bullhugsunin og að kenna innflytjendum um undirfjármagnað velferðarkerfi.

Allir hljóta að sjá að þetta er kolvitlaus nálgun. Hér þurfum við virkilega að taka til hendinni, því hugmyndir Halldórs eru í besta falli vafasamar og ásetningur hans er skýr.

Að hverfa frá því er eins og að fara að skipta krökkum aftur í bekki eftir getu, og búa til tossabekki. Setja börn sem kunna að glíma, etv. tímabundið við mótbyr eitthvert annað? Henda þeim út og setja í sérskóla sem ekki eru til. Í stað þess að leggja til fagfólkið, hugmyndirnar og aðferðirnar sem láta þessa miklu framför í skólastarfinu ganga upp. Til gríðarlegra hagsbóta fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Samfélagið allt.

Því miður horfum við upp á það að formaður Sambands sveitarfélaga, sem er mikill áhrifamaður þegar kemur að grunnskólanum, vill færa skólastarfið aftur um áratugi. Hans eina lausn á verkefni sem blasir við – að bæta í rekstur grunnskólanna – er að búa til nýjan og miklu verri vanda. Og ekki bara það. Hann hyggst gera grunnskólakennara ábyrga fyrir sinni fortíðarsýn.

Við verðum að spyrna við áður en hann raunverulega kemst upp úr startholunum.

Öll völd og allan auð til örfárra – eða allra?

Það er margt og mikilvægt sem rætt er í kosningabaráttunni sem brátt sér fyrir endann á. Menntamál, menningarmál, velferðarkerfið, innviðirnir, loftslagsmál og fleira hafa verið áberandi í umræðunni. Líka tekjuöflun ríkisins, skattaskjól og veiðigjöld. Allt skiptir þetta miklu máli.

Minna hefur farið fyrir umræðu um umgjörð fyrirtækjareksturs í landinu. Það er helst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haldið á lofti sinni gömlu klisju um „öflugt atvinnulíf“. Það er í grófum dráttum orðaleppur fyrir brauðmolakenninguna; virk og öflug barátta fyrir hagsmunum fámenns hóps fólks sem hirðir æ stærri hlut af tekjum og eignum samfélagsins. Og völdum í samræmi við það. Þetta skiptir máli. Færri verða stærri og stærri. Rétt eins og bankarnir fengu að gína yfir öllu fyrir hrun.

Við erum á hálum ís.

Samþjöppun í atvinnurekstri er orðin alvarlegt vandamál. Vandamál sem ógnar hagsmunum alls almennings. Hér er ekki aðeins átt við óþægilega náin tengsl margra stórútgerðanna. Heldur líka sú staðreynd að eigendur margra hinna stærstu hafa smátt og smátt verið að gleypa upp annan atvinnurekstur.

Eigendur Samherja hafa eignast olíufélag í samvinnu við aðra stórútgerð. Sömuleiðis heildsölu og innflutning á fjöldamörgum vörum. Eigandi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum eignaðist nýlega eitt helsta innflutningsfyrirtæki landins og niðursuðuverksmiðjuna ORA. Þessir milljarðamæringar reka síðan sitt eigið málgagn í félagi við örfáa aðra í sömu stöðu.

Þetta eru dæmi sem fyrir löngu eiga að hafa sett allar viðvörunarbjöllur í gang. En við horfum einnig upp á dæmi af öðrum toga. Að grunninnviðir samfélagsins, sem almenningur hefur byggt upp á mörgum áratugum, séu afhent auðmönnum.

Hvernig gat það gerst að raunveruleg yfirráð yfir drykkjarvatni, hitaveitu og rafmagni voru sett í hendur auðmanns sem hefur það eina markmið að græða peninga á lífsnauðsynjum allra? Við búum við regluverk sem hindrar að fyrirtæki í eigu almennings taki þátt í rekstrinum, en hampar einokun auðmannsins. Þetta gerðist á Suðurnesjum.

Svona eru örfáir ofurríkir einstaklingar smátt og smátt að læsa greipum sínum um okkur öll, grunnþarfir og afkomu.

Viljum við að fámennur hópur sem setur eigið ríkidæmi í fyrsta, annað og þriðja sæti kaupi upp öll völd í landinu? Langar einhvern í alvöru að lúta örfáum auðmönnum sem enginn hefur kosið?

Auðvitað ekki.

Við getum ekki búið við samkeppnisslöggjöf sem lokar augunum fyrir einokun auðmanna á almennum atvinnurekstri og grunninnviðum. Verkefnið er skýrt og þolir enga bið: Lög gegn hringamyndun.

„Verulegar skuldbindingar“

„Við eigendur Samherja tókum á okkur verulegar skuldbindingar eftir hrun og við munum að sjálfsögðu nýta að hluta þennan arð til að greiða niður þessar skuldbindingar. Það er útilokað, hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða prívat eigendur, ég held að menn vilji ekki vera í fjárfestingum nema hafa einhverja möguleika á að borga fjárfestingarnar niður.“

Þetta segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja og einn aðaleigandi fyrirtækisins og margra annarra, í samtali við fréttastofu RÚV.

Þorsteinn Már Baldinsson segir í umræðu um veiðigjöld og milljarða arðgreiðslur til eigenda, að þeir hafi tekið á sig „verulegar skuldbindingar“ og Samherji leggi mikið til samfélagins, meðal annars í formi tekjuskattsins sem óbreyttir starfsmenn greiða af launum sínum. Mynd: Rúv.

Þorsteinn Már Baldinsson segir í umræðu um veiðigjöld og milljarða arðgreiðslur til eigenda, að þeir hafi tekið á sig „verulegar skuldbindingar“ og Samherji leggi mikið til samfélagins, meðal annars í formi tekjuskattsins sem óbreyttir starfsmenn greiða af launum sínum. Mynd: Rúv.

Hver dáist ekki að slíkri fórnfýsi? Hver finnur ekki til með milljarðamæringum sem taka á sig „verulegar skuldbindingar“? Niðurstaðan af því hlýtur að eiga að verða einhvern veginn á þá leið að frekari umræður um auðmannaskatt og auðlindagjöld sé óþarfar. Þetta súlurit sýni ekki aðeins hlutina eins og þeir eigi að vera, heldur sé líka óumdeildur leiðarvísir til framtíðar:

Myndin sýnir hvernig ríkisstjórnin hefur miðlað gríðarlegum verðmætum til fárra eigenda útgerðarfyrirtækja. Á sama tíma hafa innviðir samfélagsins verið vanræktir.

Myndin sýnir hvernig ríkisstjórnin hefur miðlað gríðarlegum verðmætum til fárra eigenda útgerðarfyrirtækja. Á sama tíma hafa innviðir samfélagsins verið vanræktir.

Að minnsta kosti þangað til einhver spyr: Hvaða skuldbindingar er maðurinn að tala um?

Má vera að í þessu tilvki sé dugnaðurinn fólgin í kaupum á útgáfufélagi Morgunblaðsins og niðurgreiðslu á rekstri þess? Felst hann í kaupum á olíufélagi, stórum hluta innflutnings og heildsölu í landinu? Um þetta eru ýmis dæmi (sjá t.d. hér og hér. Og þau finnast víðar en í útgerð).

Þá vaknar spurning. Hvort er betra fyrir samfélagið að:

aAlmenningur fái í sinn hlut réttlátan skerf af sameignlegri auðlind sinni til að greiða fyrir velferð, menntun og aðra innviði?

bÖrfáir einstaklingar fái að sitja einir að næstum öllum afrakstri sameiginlegrar auðlindar og sölsi í framhaldinu undir sig annan atvinnurekstur í landinu?

Ég læt þér eftir svarið lesandi góður.

Æ sér gjöf til (veiði)gjalda?

Hún er ekki fögur myndin sem birtist með grein í Fréttablaðinu í morgun. En hún er mikilvæg og lýsandi. Hún sýnir hagsmuni hverra ríkisstjórnin hefur í forgangi.

Myndin sýnir hvernig ríkisstjórnin hefur mokað milljörðum í vasa kvótaþega.

Myndin sýnir hvernig ríkisstjórnin hefur mokað milljörðum í vasa kvótaþega. Eva H. Baldursdóttir lögfræðingur á heiðurinn af myndinni.

Þetta er bara arðurinn í vasa örfárra eigenda útvegsfyrirtækjanna. Hagnaður af rekstri þeirra er miklu miklu meiri. En við sjáum þarna svo glöggt hvernig almenningur í landinu er settur til hliðar. Og við okkur blasir hvers vegna ekki fást peningar til að standa undir heilbrigðiskerfinu, skólunum, vegunum, öllum öðrum vanræktum innviðum. 

Og svo getum við spurt okkur hverjir fengu alla þessa milljarða. Svarið við því má finna á annarri mynd úr grein sem birtist nýlega í Fréttatímanum.

Myndin sýnir eignarhald stærstu útvegsfyrirtækjanna. Þau fá úthlutað amk. 75% af kvótanum við Ísland.

Myndin sýnir eignarhald stærstu útvegsfyrirtækjanna. Þau fá úthlutað amk. 75% af kvótanum við Ísland.

Myndin sýnir hvað það eru ótrúlega fáar manneskjur sem stinga arðinum af sjávarútvegsauðlindinni í eigin vasa. Þúsundir milljóna króna á hverju ári færðir frá almenningi í vasa innan við eitthundrað einstaklinga.

Það er staðreynd að fyrirtækin á þessum lista hafa verið drjúg í því að „styrkja“ núverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Um styrki til flokkanna á síðasta kjörtímabili má lesa hér. Nýjustu tölur frá Ríkisendurskoðun sýna glögglega að ekkert hægir á peningastraumnum (sjá hér og hér).

Hvaða ályktanir dregur þú af því?

Hriplekt hagkerfi

„Við verðum að hafa jöfnuð í einu hagkerfi. Og það verður að finna balans í einu hagkerfi þar sem ekki er atvinnuleysi, ekki er sultur, þar sem fólk hefur aðgang að heilbrigðisþjónustu og menntun og þar sem ekki eru milljarðamæringar. Að eignast milljarð í einu hagkerfi, þá hefur maður fundið leka í hagkerfinu. Hagkerfið er ekki að virka rétt ef maður getur eignast milljarð. Hvað er þetta sex, sjö ævilaun læknis, gæti ég trúað. Þetta eru gífurlegir peningar. Mér finnst að fólk geti orðið smart upp á eigin ævilaun, en þegar þetta eru orðin margföld ævilaun hálaunastéttar þá er kominn upp leki. Þá er mín spurning: Er eitthvað að hagkerfinu eða er maðurinn þjófur? Ég er ekki að spyrja að þessu því að það var Laxness sem spurði um þetta fyrst.”

Þetta sagði Guðni Stefánsson uppeldisfræðingur í útvarpsviðtali fyrir fimm árum. Þetta á enn við. Ég er sammála Guðna.

 

Villuráfandi hagfræðingur

Það getur komið fyrir ágætasta fólk að fara með rangfærslur eða éta þær upp eftir öðrum. Svo eru dæmi um að fólk getur spennt bogann svo hátt að hann brestur. Hvort tveggja hendir Bolla Héðinsson hagfræðing.

Hann ber Vinstri græn þungum sökum ásamt Tortólaflokkunum í grein í Fréttablaðinu og á Vísi. Þar fjallar hann um nýjan búnaðarsamning og meintan skilyrðislausan stuðning VG við málið.

Gróðureyðing í boði VG, Sjálfstæðis og Framsóknar“ kallast skrifið. Þetta eru stór orð. Þeim hljóta að fylgja rök.

Þau er ekki að finna í greininni. Undir þessari stóru fyrirsögn stendur aðeins þessi stutta efnisgrein:

„Meðal þess sem sauðfjárhluti landbúnaðarsamningsins hvetur til er aukin gróðureyðing á viðkvæmum svæðum. Prófessor við Landbúnaðarháskólann hefur varað við þessu í blaðagreinum án þess að því hafi verið mótmælt.“

Í stuttu máli: Þetta stenst ekki skoðun. Hagfræðingurinn er á algjörum villigötum.

Nánar: Grein Bolla ber með sér að hann hefur ekki haft fyrir því að kynna sér efnið. Ef menn vilja láta taka mark á sér, þá er lágmark að þeir færi sannfærandi rök fyrir stóryrðum.

Ég leyfi mér að grípa niður í greinargerð Landssamtaka sauðfjárbænda við umrætt mál:

„Engin haldbær rök hníga að því að þær kerfisbreytingar sem í nýja samningnum felast leiði til fjölgunar fjár. Framleiðsla á lambakjöti hefur verið frjáls og án kvóta í rúm 20 ár en fé fækkað. Ótti við offramleiðslu eða aukið beitarálag er beinlínis órökréttur og ástæðulaus miðað við efni samningsins.

Áfram er stutt er við siðlega búskaparhætti í nýja samningum, m.a. með því að styrkja verulega gæðastýringu í sauðfjárrækt sem hefur verið eitt öflugasta sjálfbærniverkefni hér á landi frá 2003. Komið verður á sívirku rannsóknar-, mats- og vöktunarkerfi á landi til að styrkja vísindalegan grundvöll skynsamlegrar beitarstýringar.“

Við þetta má bæta að sauðfjárbændur hafa farið fremstir í flokki við uppgræðslu og landbætur. Þetta hafa þeir gert í samstarfi við Landgræðsluna í verkefninu Bændur græða landið og ekki síður í tengslum við landbótaáætlanir sem eru lykilþáttur í gæðastýringu sauðfjárræktar. Varlega áætlað hafa bændur grætt upp a.m.k. 45 þúsund hektara lands undanfarin ár í tengslum við þessi verkefni.

Það er reyndar svo að undanfarin ár hafa bændur grætt upp land með mun meiri hraða en sem nemur hraða gróðureyðingar og ofnýtingar liðinna alda.

Grein hagfræðingins er annars minnst um þetta. Inntak hennar er einhvers konar útlistun á hans eigin hugmyndum um landbúnað og fýla út í VG og rekstur á samfélagslegum grunni. Fyrirsögnin „Lofsöngur til frjálshyggjunnar“ hefði sennilega lýst henni betur.

Staðreynd: Jörðin er flöt

Það er staðreynd að jörðin er flöt. Það er staðreynd að brauðmolakenningin virkar. Það er staðreynd að mín skoðun er staðreynd.

Þennan söng mætti kalla einkennislag íslenskra frjálshyggjumanna. Ímyndun og óskhyggja sett fram sem staðreynd, án tillits til röksemda, gagna, lærdóma reynslunnar eða einfaldlega veruleikans eins og hann blasir við okkur flestum.

Nýleg dæmi eru um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar vill fyrrverðandi menntamálaráðherra gera grundvallarbreytingar á grundvelli hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. Nú síðast ríður prófkjörsframbjóðandi úr sama flokki fram á völlinn á flokkslínu frjálshyggjunnar:

„Það er staðreynd að yfirgnæfandi meirihluti námsmanna mun verða í betri fjárhagslegri stöðu verði frumvarpið samþykkt.“

Þetta má til dæmis umorða svo:

Mín skoðun er staðreynd. Það er staðreynd.

Frumvarp fyrrverðandi menntamálaráðherra um breytingar á LÍN kann að fela í sér jákvæða þætti eða hugmyndir sem byggja mætti á til lengri tíma. Það er ástæðulaust að hafna því með öllu fyrirfram. Þar eru einnig ýmis atriði sem kalla á nánari athugun. Þar er nefnilega ýmislegt að finna sem við fyrstu sýn, og raunar nánari skoðun, vegur að sjálfum grundvelli menntakerfisins: Jafnrétti til náms.

Lítum aðeins á tvennt: Til stendur að afnema tekjutengingu við endurgreiðslu á lánum LÍN. Til stendur að hækka vexti af lánum LÍN um 300% Hvorug þessara tillagna er rökstudd með sannfærandi hætti í gögnum frá Illuga Gunnarssyni.

Lítum á eina mikilvæga staðreynd sem skiptir verulegu máli í þessu sambandi. Muninn á launum karla og kvenna.

Konur á aldrinum 25-29 ára fá almennt 64 þúsund krónum lægri laun á mánuði en karlkyns jafnaldrar. Það slagar upp í 800 þúsund króna launamun á ári. Á þessu aldursbili geta karlar reiknað með að fá fjórum milljónum króna meira í launaumslagið en konur.

Konur á aldrinum 30-34ra ára fá almennt 105 þúsund krónum minna á mánuði en karlkyns jafnaldrar. Árlegur launamunur er hátt í ein komma þrjár milljónir króna á ári. Á þessu aldursbili nemur launamunurinn yfir sex milljónum króna.

Hvernig er hægt að halda því fram að konur standi jafnfætis körlum þegar kemur að endurgreiðslu námslána? Hvernig er hægt að halda því fram að flokkslína frjálshyggjumanna vegi ekki að jafnrétti til náms?

Svarið er einfalt. Hagur námsmanna mun að sjálfsögðu vænkast í heimi ímyndunar og óskhyggju, þar sem:

Það er staðreynd að jörðin er flöt. Það er staðreynd að brauðmolakenningin virkar. Það er staðreynd að mín skoðun er staðreynd.

Og 0,3 prósent íslensku þjóðarinnar lifðu hamingjusöm til æviloka. Köttur út’í mýri osfrv.

„Höldum áfram að berjast. Við verðum“

Screen Shot 2016-05-02 at 16.26.06 1

„Er þetta samfélagið sem ég vil ala börnin mín upp í? Er öllum bara skítsama um að fólk sé niðurlægt á hverjum degi? Ég skammast mín í dag fyrir að vera Íslendingur og það er sárt.“

Þessi orð lét Hjördís Heiða Ásmundsdóttir falla við mótmælastöðu utan við húsnæði Tryggingastofnunar ríkisins fyrr í vor. Hún lýsti þar úr hjólastól sárum vonbrigðum með aðgerðarleysi og áhugaleysi.

Sem betur fer virðist blóðið samt renna í Íslendingum. Það sýna kröftug mótmæli undanfarið í kjölfar frétta úr Panamaskjölunum. Við verðum samt sem áður að gefa gaum að orðum Hjördísar Heiðu. Við getum gert svo miklu miklu betur.

Við hreykjum okkur af frábærum lífsgæðum. Og því er ekki að neita að fyrir marga eru þau sannarlega fyrir hendi. En allt of mörg verða útundan. Og við sættum okkur við þjóðskipulag sem hyglar fáum á kostnað flestra. Samfélag sem hampar auðvaldinu. Það er löngu tímabært að breyta.

Við hreykjum okkur af mesta kynjajafnrétti í heimi. Samt er það ekkert jafnrétti. Það er eitthvað mikið að þegar við metum framlag kvenna almennt minna en karla. Við höfum mikið verk að vinna. Okkur skortir ekki tækifærin og heldur ekki viljann. Við þurfum að ganga til verka. Og verkefnin eru miklu fleiri.

Gleymum heldur ekki varðhundum skattaskjólanna sem ríghalda örvæntingarfullum krumlum í ráðherrastólana. Til hvers? Svo þeir geti geti haldið áfram með nýfrjálshyggjuprógrammið. Einkavæðing grunnstoða á borð við raforkukerfið, bankasala, sjúklingagjöld í veldisvexti, markvissar fjárhagslegar hindranir í menntakerfinu, einkavæðing skóla án umræðu, kverkatakið á almannaútvarpinu. Listinn er miklu lengri. Ekkert á hinum þokukennda verkefnalista hinnar umboðslausu ríkisstjórnar horfir til framfara fyrir íslenskan almenning. Augljós spilling og áberandi skortur á auðmýkt og siðferðisþreki bætir seint það sem vont var fyrir.

Hér þarf nýjar hugmyndir. Nýjan innblástur. Nýjar aðferðir. Nýtt þing og nýja stjórn. Nýtt siðferði. Og tala nú ekki um stjórnarskrá.

Við búum yfir þessu öllu nú þegar og meiru til.

Í landinu höfum við háð þrekmikla baráttu gegn auðvaldi og frekju þeirra fáu sem telja sig eiga tilkall til alls. Ekki aðeins hinna efnislegu gæða, heldur krefjast þeir einnig þess að fá að stýra hugsunum okkar, hugmyndum og tjáningu. Það er ekki í boði. Tími breytinga er genginn í garð. Við finnum þetta hvert hjá  öðru, þegar við upplifum samstöðu og finnum fyrir vorinu, líka í hjartanu. Ekki síst þegar kraftmikið fólk eins og Hjördís Heiða blæs okkur andann í brjóst með orðum sem ég vil gera að mínum:

„Ég bið ykkur innilega, hvert og eitt ykkar: Haldið áfram í vonina og höldum áfram að berjast. Við verðum. Þetta snýst um mannréttindi hvers og eins einasta. Stöndum saman!”

Leiðari úr 1. maí.